Hvað er orkustöð?

Orkustöðvar (Chakra) eru hluti af orkusviði líkamans. Chakra þýðir hjól eða diskur sem snýst, á sanskrít. Orkustöðvar safna orku, umbreyta henni og dreifa um líkamann. Orkustöðvar eru líka sagðar geyma upplýsingar um allt sem við höfum upplifað í lífi okkar, upplýsingar um hverja hugsun, athafnir og tilfinningar. Aðalorkustöðvarnar eru sjö og raða þær sér upp í línu við hrygginn. Þær eru í mismunandi litum en litirnir fara eftir tíðni orkunnar sem er í hverri orkustöð.

Áhrif orkustöðva á tilfinningar og líkama.

Að læra um mikilvægi orkustöðva gefur þér tækifæri til að læra betur inn á líkama þinn og tilfinningar svo þú getir öðlast betra andlegt og líkamlegt jafnvægi. Erfitt er að sanna tilurð orkustöðva þar sem fæstir geta séð þær með berum augum en mörg atriði í okkar daglegu hegðun gefa sterklega til kynna tilvist þeirra. Þegar við finnum ást, þakklæti og kærleikstilfinningu er eins og tilfinningin komi frá miðri bringu en þar er einmitt hjartastöðin. Þegar okkur líður illa og eigum erfitt með að tjá okkur fáum við kökk í hálsinn þar sem hálsstöðin er. Þegar við finnum fyrir óöryggi og kvíða setjum við oft hendur í kross yfir magann nákvæmlega á þann stað þar sem magastöðin er.

Hver orkustöð hefur áhrif á mismunandi kirtla, taugahnoð og ólíka líkamshluta. Áhrif orkustöðva koma fyrst fram í þeim kirtli líkamans sem viðkomandi orkustöð er tengd og þaðan dreifast áhrifin út í nálæg líffæri. Það er því gott að hafa á bak við eyrað hvaða líffæri og kirtlar tengjast hverri orkustöð því veikt líffæri segir okkur að viðkomandi orkustöð þarfnist meðhöndlunar.

Jafnvægi orkustöðva

Þegar orkustöðvar eru í jafnvægi er gott flæði á milli þeirra og einnig um þær sjálfar. Við getum líkt flæðinu á milli þeirra við beina umferðargötu. Neikvæðar hugsanir og óuppgerðar tilfinningar geta haft heftandi áhrif á þetta flæði og þá myndast þrengingar. Líkja má þrengingunum við hringtorg sem orkan stoppar of lengi í. Þegar ójafnvægi er á orkuflæðinu getur það orksakað sjúkdóma í þeim líkamshlutum sem orkustöðin tengist. Flest vandamál sem við glímum við, hvort sem þau eru líkamleg, tilfinningaleg eða huglæg, eiga rætur sínar að rekja til stíflu eða þrengingar í orkustöðvum og þar af leiðandi í lífsorkunni. Þess vegna er mikilvægt að halda orkustöðvunum í jafnvægi en það eru ýmsar leiðir til þess. Nauðsynlegt er þó að hafa í huga að öll erum við með einhverjar minniháttar þrengingar í orkuflæðinu okkar án þess að það hafi afgerandi áhrif á heilsu okkar.

Leiðir til að halda orkustöðvum í jafnvægi

Margar leiðir eru til að losa um stíflu í orkustöð en eftirtalin atriði hafa reynst best: Öndunaræfingar, Hatha yoga æfingar, hugleiðsla og heilun. Blómadropar og kjarnaolíur hafa einnig reynst vel, einnig jákvætt hugarfar og heilnæmt mataræði.

Höfuðstöð | Hvirfilstöð

Efsta orkustöðin eða höfuðstöðin er staðsett efst á höfðinu hún er sögð vera orkustöð alheims vitundarinnar (andlega tengingin). Liturinn á henni er yfirleitt talin vera skærhvítur, fjólublár eða gullin. Hún er sögð vera megin orkustöð, sú orkustöð sem stjórnar öllum hinum orkustöðvunum.

Það er í gegnum þessa orkustöð sem alheimsljósið eða ljós Guðs flæðir inn í líkamann, ljósið sem færir okkur heilun, visku, kærleika, frið og uppljómun. Óendanlegan kærleika og alsælu.

Þegar manneskjan fer í gegnum uppljómun þá sér hún tilveruna í nýju ljósi. Vitundin um efnislíkamann er ekki lengur til staðar, allar hömlur, öll tilfinning fyrir tvískiptingu, mismun og aðskilnaði hverfa. Það er enginn tími eða rými, hún gerir sér grein fyrir að það er ekkert annað en blekking hugans. Í þessu ástandi er bara eilífðin, gleðin og alsælan. Það er engin leið að lýsa þessari upplifun fólk verður að upplifa þetta sjálft til þess að skilja hvað þetta er.

Nánar

Ennisstöð | Þriðja augað

Ennisstöðin eða þriðja augað, er staðsett á miðju enninu rétt fyrir ofan augun. Í gegnum ennisstöðina fáum við innsæis gáfuna, skilninginn, skyggnigáfuna (innri sjónina) og ímyndunaraflið.

Sumir segja að sálin sitji í ennisstöðinni á meðan aðrir segja að hún sé í efri hjartastöðinni. Það er sagt að jógarnir dragi lífsorkuna inn í þriðja augað á dauðastundinni.

Þegar kúndalíní eldurinn hefur verið vakinn í rótarstöðinni þá fer orkan sem því fylgir aðallega upp þrjár stórar orkubrautir, þær hafa verið nefndar Ida (kvenorkan) í vinstri hlið líkamans og Pingala (karlorkan) í hægri hlið líkamans, svo er líka orkubraut í miðjunni sem kallast Sushumna. Ida (kvenorkan) og Pingala (karlorkan) hlykkjast upp orkubrautirnar í hryggnum og mætast að lokum í ennisstöðinni og sameinast þar í eitt. Þegar þessi guðlega gifting/sameining verður þá er eins og það verði bliss eða ljósflæði um allan líkamann og manneskjan upplifir sig algjörlega heila.  “Ljós líkamans er augað: þar af leiðandi þegar auga þitt er eitt, þá er allur líkami þinn fylltur ljósi.” Luke 11:34.

Nánar

Hálsstöð

Hálsstöðin er staðsett á hálsinum eins og nafnið gefur til kynna. Hálsstöðin hefur með tjáninguna að gera hvort sem það er talað mál, skriftir, listir eða söngur, allt það sem við tjáum eða sköpum fer fram í hálsstöðinni. Það er í þessari orkustöð sem við lærum að hafa stjórn á vilja lægra sjálfsins eða (egóinu).

Hálsstöðin tengist draumum, ímyndunum og ferðalögum sálarinnar (astral travel).

Það er í gegnum þessa orkustöð sem hægt er að tengjast akasa skránum (lífsferilskrám sálarinnar.) Sagt er að með því að sigra þessa orkustöð geti maður sigrast á sjálfum sér.

Nánar

Hjartastöð

Hjartastöðin er staðsett nokkurn vegin á miðjum brjóstkassanum, ef við teygjum báðar hendur út þá er hjartastöðin í miðjupunktinum, þar sem lóðrétt staða líkamans og lárétt staða út frá útréttum örmum mætast.

Þetta er sú orkustöð þar sem við finnum fyrir óskilyrtum kærleika, samúð og nærgætni. Í gegnum þessa orkustöð finnum við til ástar og kærleika til annarra mannvera, okkar sjálfra, dýranna, blómanna, jarðarinnar, sólarinnar, himinsins og bara alls sem er. Þessi orkustöð hefur einnig með gleðitilfinninguna að gera. Hún er tengistöð á milli andlegra og líkamlegra orkustöðva þ.e.a.s. á milli efri og neðri orkustöðva.

Nánar

Sólarplexus

Sólarplexus er staðsettur rétt fyrir neðan bringubeinið eða rifbeinin. Þessi orkustöð er þekkt sem valdastöð. Sólarplexus hefur að gera með persónulegan styrk, viljastyrk, metnað, athafnasemi, hugarafl og brennslu.

Það er mikilvægt fyrir fólk sem er næmt fyrir tilfinningum annarra að vernda þessa orkustöð, því að þetta er sú orkustöð sem aðrir geta dregið frá manni orku, meðvitað eða ómeðvitað.

Nánar

Magastöð

Magastöðin er staðsett rétt fyrir neðan naflann. Þessi orkustöð er beintengd við ennisstöðina og hefur verið kölluð orkustöð vatnsins eða sætleikans. Magastöðin hefur að gera með aðdráttaraflið, aðlöðun/persónutöfra, þessi orkustöð færir okkur líka hina nærandi tilfinningalegu kvenorku sem þarf til þess að gefa sál nýjan líkama, (til þess að konan geti orðið barnshafandi), langanir, tilfinningar, sköpunarorkuna, lífsorkuna, kynorkuna, kynlíf, náin sambönd.

Magastöðin er tengd tilfinningum og tilfinningasveiflum og hefur tunglstaða mjög mikil áhrif á þessa orkustöð enda er element hennar vatn. Þegar konan gengur í gegnum breytinga skeiðið þá fer sköpunarkrafturinn frá magastöð upp í hálsstöð þar sem honum er umbreytt í andlega orku.

Nánar

Rótarstöð

Rótarstöð er staðsett í spönginni við rófubeinið. Hún hefur að gera með efnislífið, að komast af á jörðinni, þessar grunnþarfir t.d. matur og húsnæði, að bregðast við hættuástandi, að bjarga sér við allar mögulegar aðstæður, líkamlega orku, fjölskylduna, samfélagið, ættbálkinn.

Rótarstöðin er orkuhlið okkar til jarðarinnar, jarðtengingin, þessi orkustöð er beintengd við höfuðstöðina. Það er í raun og veru ómögulegt að virkja höfuðstöðina til fulls nema að hafa streka undirstöðu, (vera búin að virkja rótarstöðina).

Nánar